Útleysing og skemmdir á Bolungarvíkurlínu 1

6. nóvember 2011 kl. 11:54
 

Útleysing varð á Bolungarvíkurlínu 1 rétt eftir miðnætti aðfararnótt  31. október. 

Bolungarvíkurlína 1  liggur frá Breiðadal í Önundarfirði til Bolungarvíkur.  Vegna veðurs var ekki hægt að ljúka við skoðun línunnar fyrr en 4. nóvember og kom þá í ljós að töluverðar skemmdir höfðu orðið á línunni á svokallaðri Hestakleif. 

Hestakleif, í um 700m hæð,  liggur vestan við Kistufell þar sem línan fer upp af Botnsheiði yfir í Syðridal í Bolungarvík og er án efa eitt erfiðasta línustæði landsins.  Þarna geta skapast mjög erfiðar aðstæður,  mikil vindhæð, sviptivindar og ísing.  Ísing á leiðara í þessari bilun mældist mest um 50 cm að þvermáli.  Þrír staurar og þrjár slár eru brotnar, einangrarar brotnir auk skemmda á leiðara. 
Áætlað er að hefja viðgerð um leið og lokið er við að ryðja snjó af vegslóða og opna sneiðing upp fjallið.

Til baka | Prenta