Staðan að morgni miðvikudagsins 9.desember...

9. desember 2015 kl. 09:50

Í Önundarfirði eru allir með rafmagn að gömlu flugstöðinni og Ingjaldssandi undanskildum. Vitað er um einn brotinn staur í Ingjaldssandslínu en björgunarsveit er á leið að skoða línuleiðina yfir á Sand og í framhaldinu verður hugað að viðgerð.

Enn er rafmagnslaust í norðanverðum Dýrafirði. Rafmagn er að Gemlufalli. Unnið verður að viðgerðum í dag og vonandi tekst að koma rafmagni á allt að Núpi.

Haukadalslína var sett inn í gærkvöldi eftir að álma að hesthúsum við Sanda og að Múla voru aftengdar. Rétt er að geta þess að á þessum slóðum liggur línan víð lágt og því nauðsynlegt að fara að öllu með gát.

Viðgerðarflokkur mun fara í Arnarfjörð með efni til viðgerða í dag. Á Hrafnseyrarhlíð eru brotnir staurar sem skipta þarf um og þannig koma rafmagni frá Mjólká til Þingeyrar, sem í dag er rekin á varaafli. Varaafl er takmarkað og íbúum í á Þingeyri bent á að fara sparlega með það.

Ekki verður gert við 33 kV línuna milli Þingeyrar og Breiðadals að svo stöddu en í henni eru amk 50 staurar brotnir.

Von er á flokki frá Landseti sem mun fara í að endurbyggja 66 kV línuna milli Mjólkár og Breiðadals. Vitað er um 17 brotnar stæður í henni, en eftir er að skoða stóran hluta hennar.

í Súðavík er keyrt á varafli og verður línan skoðuð í dag.

Á vestursvæðinu voru menn að störfum fram á nótt í Tálknafirði. Vel hefur gengið að koma sveitalínunum í lag. Barðastrandarlína fór inn um kl. 11 í gærmorgun. Mikil selta var á svæðinu.   Bilun er á línunni yfir í Ketildali í Arnarfirði. Undirbúningur fyrir viðgerð þar er hafinn og verður komið rafmagn á í dag að öllu óbreyttu.

Veiðafæraskemma, bárujárnsklædd, staðsett ofan við aðveitustöð okkar í Mikladal fauk og stór hluti hennar, járnplötur og stórir þakhlutar liggja innan girðingar við virkið og eitthvað inni í virkisgirðingunni sjálfri. Lán er að mikið tjón varð ekki að þessum völdum.

Á Ströndum og í Reykhólasveit hefur að því best er vitað ekki verið tilkynnt rafmagnsleysi.

 

Til baka | Prenta