Staðan að morgni fimmtudagsins 10.desember...

10. desember 2015 kl. 11:27

Varaaflsvélar Landsnets í Bolungarvík sjá norðanverðum Vestfjörðum fyrir rafmagni að undanskildum Þingeyri og Súðavík en þar sjá varaaflsvélar Orkubúsins íbúum fyrir rafmagni. Hvergi er um skömmtun að ræða en fólk er hvatt til að fara sparlega með rafmagn í ljósi aðstæðna.

Landsnet vinnur að viðgerð á aðalflutningslínu sinni frá Mjólká að Breiðadal og reikna með að henni verði lokið á laugardagskvöld. Þá verður hægt að stöðva varaaflsvélarnar í Bolungarvík.

Orkubúið vinnur að viðgerð á línunni milli Mjólkár og Þingeyrar ásamt því að koma rafmagni til síðustu notenda í dreifbýlinu sem hafa verið án rafmagns síðan á mánudagskvöld.

Vonast er til að hægt verði að koma rafmagni á Ingjaldssandslínu í dag.

Viðgerð er að ljúka á línunni að Mýrum í Dýrafirði og verið er að leggja rafstreng ofanjarðar frá Felli að Læk og að Núpi. Vonast er til að þá verði komið rafmagn til allra í Mýrarhreppi nema að Gerðhömrum en í línunni milli Núps og Gerðhamra eru einungis 7 staurar uppistandandi.

Á sunnaverðum Vestfjörðum og á Ströndum eru allir komnir með rafmagn að því best er vitað.

Í Ísafjarðardjúpi er gert ráð fyrir að náist að tengja alla við raforkerfið í dag.

Til baka | Prenta