Greining á straumleysi 3. október

12. október 2016 kl. 13:25

Starfsmenn Orkubús Vestfjarða hafa farið yfir orsök straumleysis sem varð á Vestfjörðum mánudaginn 3. október sl. Grunnorsökin var straumleysi sem varð á flutningslínu Landsnets frá Geiradal að Mjólká, Mjólkárlínu 1.  Vindálag varð til þess að leiðari fór úr festingum og samsláttur varð á línunni kl. 7:16.

Í kjölfarið kom fram bilun í snjallneti sem varð til þess sjálfvirkni virkaði ekki á Ísafirði og þurfti því að setja inn kerfið handvirkt á Ísafirði og í nágrenni. Innsetningu lauk kl. 7:39, á meðan varði straumleysið í Bolungarvík og Súðavík einungis í tvær þrjár mínútur svo dæmi sé tekið.  Um var að ræða bilun sem kom til vegna mannlegra mistaka sem orðið höfðu við fyrirbyggjandi viðhald og uppfærslu búnaðar sem tengist snjallnetinu. Verkferlar hafa í kjölfarið verið endurskoðaðir til að tryggja að sambærilegur atburður gerist ekki aftur. 

Þegar viðgerð á upphaflegri bilun í Mjólkárlínu fór fram sama kvöld og taka þurfti straum af línunni var bilanagreiningu á snjallneti ekki lokið. Komu þá líka fram vandkvæði við keyrslu varaflsstöðvar Landsnets í Bolungarvík sem olli mun lengra straumleysi þar en efni stóðu til.  Þau vandamál sem þar komu fram hafa nú verið leyst með góðri samvinnu starfsmanna Orkubúsins og Landsnets.

Starfsmenn Orkubúsins hafa það að markmiði að tryggja að straumleysi á veitusvæði fyrirtækisins standi í eins stuttan tíma og mögulegt er. Allt kapp er lagt á að koma í veg fyrir að mannleg mistök valdi straumleysi eða geri biðtíma neytenda, eftir að rafmagn komist á, óþarflega langan.  Einnig er unnið að því áfram að bæta upplýsingagjöf fyrirtækisins þegar truflanir verða á afhendingu orku til neytenda.

Viljum við benda viðskiptavinum á að tilkynningar eru sendar út á póstlista og er hægt að skrá sig á heimasíðu Orkubúsins. www.ov.is

Einnig er hægt að fylgjast með tilkynningum á Facebook og Twitter.

 

Til baka | Prenta