Samfélagsstyrkir Orkubús Vestfjarða 2016

30. nóvember 2016 kl. 16:11
Frá afhendingu samfélagsstyrkja Orkubúsins 2015
Frá afhendingu samfélagsstyrkja Orkubúsins 2015
1 af 2

Orkubú Vestfjarða auglýsir eftir umsóknum um samfélagsstyrki 2016, en úthlutun samfélagsstyrkja er orðinn árlegur viðburður hjá fyrirtækinu. 

Orkubúið vill með styrkjunum sýna stuðning í verki við þá aðila og félög sem sinna ýmsum samfélagsmálum á Vestfjörðum.  Þar getur verið um að ræða ýmiskonar starfsemi eða félagasamtök, s.s. björgunarsveitir, íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarfsemi og listir eða einhver önnur áhugaverð verkefni sem skipta máli fyrir vestfirskt samfélag.

Rétt er að minna á að leitast verður við að styrkja verkefni vítt og breitt um Vestfirði.

Verkefnin þurfa að uppfylla þau skilyrði að þau séu til eflingar vestfirsku samfélagi, en að öðru leyti er umsækjendum gefnar nokkuð frjálsar hendur varðandi verkefni. 

Miðað er við að einstakar styrkveitingar geti verið á bilinu 50.000 til 500.000,-

Umsóknum skal skilað rafrænt með því að fylla út þetta rafræna eyðublað

Umsóknarfrestur er til og með 16. desember.

Stjórn Orkubús Vestfjarða

Stillum saman strengina

30. nóvember 2016 kl. 08:54

 

Öflugri og öruggari innviðir á Vestfjörðum

 

Málþing um áhrif af lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafstrengs frá Hrútafirði til Ísafjarðar haldið í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði föstudaginn 2. desember kl. 13-15.

 

Framsögumenn

  • Haraldur Benediktsson, alþingismaður og formaður stjórnar Fjarskiptasjóðs: Snjalla Ísland
  • Pétur Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga: Ljós á milli manna
  • Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða: Allt er þegar þrennt er
  • Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu
  • Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar: Bætt fjarskipti og aukið öryggi

 

Pallborðsumræður verða með þátttöku framsögumanna.

 

Allir eru velkomnir

 

 

 

OV - ,,appið"

21. nóvember 2016 kl. 17:10
Skjámynd
Skjámynd

 

OV – „appið“

Starfsmenn Orkubús Vestfjarða hafa hannað nýtt smáforrit fyrir snjallsíma, „OV-appið“, sem gefur almenningi aðgang að öllum tilkynningum frá fyrirtækinu beint í snjallsímann. Forritinu er sérstaklega ætlað að mæta þörf fyrir hraða og hnitmiðaða upplýsingagjöf t.d. við straumrof eða þegar miðla þarf upplýsingum varðandi rekstur dreifikerfisins og viðhald.

Um leið og forritið þjónar sem farvegur fyrir tilkynningar frá fyrirtækinu er það jafnframt leið inn á heimasíðu Orkubúsins https://www.ov.is/  með öllum þeim upplýsingum sem þar er að finna. Auðvelt er t.d. að senda inn tilkynningu um álestur eða notendaskipti beint úr snjallsímanum í gegnum heimasíðuna með því að nota flýtileið í „OV-appinu“.

Jafnhliða þróun forritsins hefur verið unnið að því að endurbæta verkferla við upplýsingagjöf varðandi straumrof eða bilanir og viðbrögð við þeim. Markmiðið er stutt og hnitmiðuð upplýsingagjöf sem berist notendum fljótt. Notendur geta jafnframt fengið sömu upplýsingar sendar beint í tölvupósti um leið og tilkynningar eru sendar út. Til þess þarf einungis að skrá sig á póstlista OV sem finna má hér: https://www.ov.is/thjonusta/postlisti/

Viðskiptavinir og aðrir áhugasamir eru hvattir til að sækja nýja appið sem komið er í dreifingu inn á Play Store fyrir snjalltæki með Android stýrikerfinu, en stefnt er að því að útgáfa fyrir iPhone verði tilbúin í janúar.

 

 

Mjólká I komin í rekstur

4. nóvember 2016 kl. 09:32

Nú er helstu prófunum lokið og vélin farin að framleiða á fullu. Síðast liðna nótt var sú fyrsta sem vélin framleiddi án viðveru tæknimanna. Væntanlega verður síðasti fulltrúi frá vélframleiðanda farin í næstu viku. Fyrsta kWst var framleidd 1. nóvember.

Seinkun var um einn mánuð að koma vélinni í rekstur. Vélin sjálf reyndist mjög góð og stenst allar væntingar. Tafir voru hinsvegar vegna hjálparkerfanna sem tók tíma að bæta. Hámarks afl vélarinnar er 2,8 MW sem er 0,4 MW meira en sú gamla. Vélin er stærri eða 3 MW. Núverandi pípa er orðin tæplega 60 ára gömul og innan ekki of margra ára verður hún endurnýjuð með trefjaplast pípu, sem hefur mun minna viðnám en hrjúf stálpípa. Hönnunarforsendur vélarinnar taka mið af nýrri pípu og það er ekki fyrr en að þeirri endurnýjun lokinni að hægt verður að komast í 3 MW.

Orkusvið 4. nóvember
Sölvi R Sólbergsson

Bjórframleiðsla á sunnanverðum Vestfjörðum?

1. nóvember 2016 kl. 16:35

Með aukinni uppbyggingu í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum koma fram áhugaverð hliðarverkefni við fiskeldið, sem geta stuðlað að minni umhverfisáhrifum.  Eitt af þeim verkefnum er að finna viðeigandi úrvinnslu á fiski, sem drepst í eldiskvíum á eldistímanum.  Er það vegna sára, sjúkdóma eða hann verður undir í lífsbaráttunni í kvíunum einhverra hluta vegna. Algengt er að reikna með að um 4% af sláturþyngd fisksins drepist á eldistímanum. 

Farga þarf seyru, sem kemur frá seiðaeldisstöðvum og er ein sú stærsta á landinu í botni Tálknafjarðar, á sama hátt laxinn.  Í báðum tilvikum má þessi úrgangur ekki komast  inní fæðukeðjuna aftur.  Lífrænt sorp frá íbúum, slóg og annar úrgangur frá fiskvinnslum og fiskmörkuðum er keyrt til urðunar og er í mörgum tilvikum fargað á óviðunandi hátt. 

Í Noregi hefur þetta hráefni verið sett í sýru til að koma í veg fyrir lyktarvandamál og síðan hefur meltan ásamt öðru hráefni verið notuð sem fóður fyrir niðurbrotslífverur, sem brjóta niður hráefnið. Við niðurbrotið myndast lífgas sem samanstendur að stórum hluta af metani og koltvísýringi auk annarra lofttegunda og lífgasið er síðan er notað til orkuframleiðslu.  Fjarðalax, nú Arnarlax, Orkubú Vestfjarða og Matís fengu styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða síðastliðinn vetur til að skoða þessi mál.  Hægt að skoða skýrsluna á slóðinni hér að neðan:
http://www.matis.is/media/matis/utgafa/12-16-Aukahraefni-fra-laxeldi.pdf

M.a. kom fram í skýrslunni að m.v. þær áætlanir sem eru um aukningu laxeldis á sunnanverðum Vestfjörðum gætu fallið til á bilinu 1.200 – 1.600 tonn af dauðfiski innan fárra ára auk annars hráefnis. Kostnaður við förgun þessa fisks gæti hlaupið á 40 – 60 milljónum króna á ári miðað við akstur og urðun í Fíflholti á Mýrum, sem er sá urðunarstaður sem næstur er. Kostnaður við uppsetningu lífgasvers, sem vinnur úr sambærilegu magni af hráefni,  gæti verið á bilinu 80 – 120 milljónir en stærðarhagkvæmni ræður miklu um kostnað við lífgasver og rekstur þeirra.  Á Patreksfirði rekur Orkubúið rafkynta hitaveitu og staðsetningin á lífgasverinu tók mið af því og notar orkuna beint inná hitaveituna.

Í verkefninu kom fram að skortur er á kolefnisríku hráefni til að blanda saman við fiskinn til að jafna hlutfall kolefnis og köfnunarefnis en fyrir niðurbrotslífverurnar er æskilegt hlutfall kolefnis um 30 á móti köfnunarefni. Kolefni fæst úr hálmi, kornvörum svo sem byggi og grænmetisafskurði svo dæmi séu tekin. Lítið framboð er af slíku hráefni á sunnanverðum Vestfjörðum og því þyrfti að flytja það annars staðar frá svo sem frá brugghúsum eða öðrum stórnotendum. Því gæti önnur hliðarbúgrein við fiskeldið hugsanlega orðið bjórverksmiðja á sunnanverðum Vestfjörðum til að fá kolefni í lífgasframleiðsluna.

 

Orkusvið

Sölvi R Sólbergsson

 

Eldri færslur