Af hverju hækkuðu niðurgreiðslur á raforku 1. janúar 2017?

3. janúar 2017 kl. 11:59

Niðurgreiðslur á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis eru ákveðnar með lögum (6.gr.laga nr. 78/2002).  Einhver misskilningur er í gangi um að OV notfæri sér hækkanir á niðurgreiðslum til að hækka gjaldskrár.  Þessu er hinsvegar öfugt farið því niðurgreiðslur ríkisins taka mið af verði dreifiveitna raforku og hækka því sem afleiðing af hækkun dreifiveitunnar.  Eftir að dreifiveitan hefur kynnt tillögur um hækkun fyrir Orkustofnun gerir stofnunin tillögur til iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í samræmi við gjaldskrárhækkanirnar, en ráðherra ákveður niðurgreiðslurnar í samræmi við lögin. 

Þann 1. janúar 2017 hækkaði gjaldskrá OV vegna dreifingar raforku í dreifbýli úr 7,52 kr/kWst í 8,18 kr/kWst eða um 66 aura kWst að teknu tilliti til 2,18 kr/kWst dreifbýlisframlags sem greitt er vegna allrar raforkunotkunar i dreifbýli.
Þar sem lög gera ráð fyrir að flutningur og dreifing raforku til húshitunar séu niðurgreidd að fullu þá hækkuðu niðurgreiðslur vegna raforku til hitunar um sömu 66 aura kWst og fóru úr 7,22 kr/kWst í 8,18 kr/kWst.
Málið er því þannig vaxið að ef taxtar OV vegna dreifingar hefðu ekki verið hækkaðir þá hefðu niðurgreiðslur til notenda á Vestfjörðum ekkert hækkað, hvorki í dreifbýli né þéttbýli.

Rétt er að taka fram að ofan á dreifingarkostnað er greitt jöfnunargjald að fjárhæð 0,3 kr/kWst.  Það jöfnunargjald greiða allir almennir notendur raforku í landinu og er gjaldið notað til að standa straum af niðurgreiðslum vegna notkunar raforku til upphitunar hjá notendum á svokölluðum köldum svæðum eins og á Vestfjörðum, en einnig nýtist gjaldið til að fjármagna dreifbýlisframlagið – 2,18 kr/kWst.  Jöfnunargjaldið sem almennir notendur þurfa að greiða er óbreytt 0,30 kr/kWst.

 

Orkureikningur heimila hækkar um 2,1% til 5%

2. janúar 2017 kl. 12:03

Gjaldskrár Orkubús Vestfjarða hækka frá og með 1. janúar 2017.  Þannig hækkar gjaldskrá fyrir dreifingu raforku um 7% en 4% fyrir sölu.  Niðurgreiðslur vegna húshitunar hækka einnig þann 1. janúar og dregur hækkunin úr kostnaðaraukningu heimila.

Áhrif hækkunarinnar á heildarorkukostnað heimila verða minnst hjá heimilum í þéttbýli sem nota fjarvarma til upphitunar, eða 2,1%, en hækkun hjá þeim sem nota rafmagn til upphitunar verður 4,5% í þéttbýli en 5% í dreifbýli.

Helsta ástæða hækkunarinnar er 13% hækkun á flutningi raforku hjá Landsneti sem er innifalin í hækkun Orkubúsins fyrir dreifingu,  ásamt almennum kostnaðarhækkunum og hækkun launa.

Fyrir dæmigert heimili í þéttbýli sem notar fjarvarmaveitu til upphitunar þá hækkar orkureikningur mánaðarins um 500 krónur eða um 6.000 krónur á ári.  Hækkunin nemur 2,1%.  Þá er miðað við að heimilið noti um 30.000 kWst í upphitun á ári og 5.000 kWst í almenna notkun.

Fyrir sambærilegt heimili í þéttbýli sem notar raforku til upphitunar þá hækkar orkureikningur mánaðarins um 1.056 krónur eða 12.672 kr á ári.  Hækkunin nemur 4,45%.  Fyrir heimili í dreifbýli sem notar sömu orku á ári þá hækkar reikningurinn um 1.293 krónur á mánuði eða 15.510 krónur á ári.  Hækkunin þar nemur því 5%.

Dæmi um hækkun hjá atvinnufyrirtæki sem notar 350.000 kWst á ári og  72 kW afl er alls 5,6% fyrir dreifingu flutning og sölu.

Orkubú Vestfjarða ohf

Fossárvirkjun í fyrirlestri á vatnsorkuráðstefnu í Skotlandi

30. desember 2016 kl. 14:33
Fossarvirkjun HPP - Iceland
Fossarvirkjun HPP - Iceland

Vélaframleiðandinn Kössler, sem seldi OV nýja vél, sem var gangsett árið 2015, taldi vélina greinilega áhugaverða fyrir framleiðandann að segja frá.  Afl vélarinnar er 1.200 kW og voru gerðar miklar kröfur til hennar, sem er óvenjulegt fyrir þetta litla vél. 

Í fyrsta lagi átti vélin að geta framleitt í eyjarekstri eins og það að sjá ein um alla raforkunotkun í Súðavík eða Holtahverfi á Ísafirði.  Stöðugleiki vélarinnar þyrfti því að vera nægur til að geta tekið við þokkalegum álagsbreytingum og á glæru nr. 9  sést hvaða kröfur voru gerðar til vélarinnar m.a. tekið álagsbreytingu uppá 300 kW.  Kasthjól vélarinnar þurfti því að vera óvenju þungt og var ekki hægt að láta rafalann einan og sér bera það uppi.  Settar voru auka legur beggja megin við kasthjólið og tengi á milli.  Á glærum nr 10 og 11 eru sýnd dæmi um álagsbreytingu, annarsvegar 100 kW og hinsvegar 200 kW.

Í öðru lagi þurfti rafali vélarinnar að hafa mikla undirsegulmögnunargetu til að geta geta tekið til sín launafl.  Sá eiginleiki er mikilvægur þegar flutningskerfi Landnets bilar og keyra þarf varaafl eins og í nýju stöð þeirra í Bolungarvík.  Launaflsframleiðsla jarðstrengja er alltaf að aukast eftir því sem fleiri loftlínur eru aflagðar og strengir settir í staðinn eða aðrar nýframkvæmdir í strenglögnum sem lengja kerfið.  Nýtist vélin því vel í samkeyrslu í stærri eyju með öðrum einingum og hjálpar til með að jafna launafl milli vinnslueininga.  Þá skiptir áðurnefndur stöðugleiki miklu máli og einnig að detta ekki út við áföll í upphafi bilunar að óþörfu og magna þannig sjokkið.  Ekki síst í samkeyrslu með Mjólkárvirkjun sem kannski er á sama tíma að ná tökum á eyju sem myndast þegar Vesturlína slær út.  

Sambærilegar kröfur eru ekki gerðar til svokallaðra bændavirkjana eins og er í botni Súgandafjarðar eða í Breiðadal í Önundarfirði.( rúmlega 500 kW hvor)  Flestir vélarframleiðendur í þessum stærðarflokki eru oftast að afgreiða vélar fyrir slíka vinnsluaðila.   Reynsla Kösslers byggðist m.a. á að þeir sáu um að afgreiða vélar í þrjú verkefni Ístaks á Grænlandi fyrir nokkrum árum þar sem viðkomandi vélar eru alltaf í eyjakeyrslu.  

Hvað varðar virkjunina að öðru leiti, þá skiptir forðinn sem er í Fossavatni miklu máli og réttlætti að hluta aukinn kostnað við virkjunina umfram hefðbundnar vélar.  Hægt er að beita vélinni mun meira en ella þegar flutningskerfi raforku bilar og spara þannig olíu á eldsneytisstöðvar á sama tíma.  Loftlagsmálin eru jú alltaf að vera meira atriði fyrri heimsbyggðina og jákvætt að orkufyrirtæki taki tillit til þeirra eins og kostur er í sínum framkvæmdum.

Orkusvið
Sölvi R Sólbergsson

 

Höldum saman gleðileg jól

20. desember 2016 kl. 14:48

Senn líður að jólum og áramótum og mikilvægt að huga vel að jólaljósum, skreytingum og rafmagnsöryggi til að við getum öll haldið saman gleðileg jól.

 

Mannvirkjastofnun gaf nýlega út leiðbeiningar um jólaljós og rafmagnsöryggi. Orkubú Vestfjarða ráðleggur viðskiptavinum sínum og  landsmönnum öllum að kynna sér vel þessar leiðbeiningar.

 

 

Gleðileg jól!

 

Tilkynning um rafmagnstruflanir á Vestfjörðum

14. desember 2016 kl. 14:09

Vegna vinnu við prófanir og stillingar díselvéla í varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík, má búast við rafmagnstruflunum dagana 15. og 16. desember n.k. frá kl. 01:00 til kl. 05:00.

Varaaflsvélar Landsnets í Bolungarvík hafa ekki virkað eins og vera skildi í nokkrum útleysingum í haust og því hefur verið unnið að lagfæringum á þeim undanfarið. Vegna þessa er nú nauðsynlegt að fara í keyrsluprófanir vélanna með aðstoð uppsetningaraðila.

Umfang truflana (nokkur skammvinn rafmagnsleysi) verður mest í Bolungarvík, en einnig má búast við truflunum annarstaðar á Vestfjörðum.

Tilkynnt verður á heimasíðu Orkubús, ov.is um leið og prófunum næturinnar er lokið.

Eldri færslur