Verðskrárhækkun fyrir dreifingu raforku

1. mars 2009 kl. 14:11

Hækkun verðskrár Orkubús Vestfjarða fyrir dreifingu raforku.

Á fundi stjórnar Orkubús Vestfjarða ohf. þann 28. janúar s.l. var ákveðið að hækka taxta verðskrár Orkubús Vestfjarða fyrir dreifingu raforku að jafnaði um 13%  frá og með 1. mars n.k..  Tengigjöld verða óbreytt að sinni. 
Helsta breyting í uppbyggingu verðskrár er að  tveggja þrepa verðlagningu dreifingar orkunnar er hætt og fast árlegt gjald hækkað til að mæta tekjutapi ásamt hækkun á ódýrara þrepinu sem eftir breytingu nær til allrar orku.

Hækkun þessi er rökstudd með vísan til verðlagshækkana frá síðustu breytingu verðskrárinnar 1/8 2008. Vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað um 23,6% síðustu 6 mánuði og vísitala neysluverðs um 8,4% og verðbólga síðustu 12 mánaða mælist rúm 18%.
Þá er einnig bent á á undanförnum árum hefur Orkubú Vestfjarða aðeins nýtt um 90% af tekjuramma sínum fyrir dreifingu raforku.

Á fyrrgreindum fundi stjórnar Orkubús Vestfjarða var ennfremur gerð svofelld bókun:

Með raforkulögunum var heimilað að skipta dreifiveitusvæðum raforku í dreifbýli og þéttbýli. Þessi uppskipting hafði það í för með sér að notendur í dreifbýli greiða umtalsvert hærra gjald vegna raforkudreifingar en notendur í þéttbýli.

Við setningu raforkulaga var því heitið af stjórnvöldum að niðurgreiða að fullu þann kostnaðarmun sem hlýst óhjákvæmilega af því að dreifa rafmagni um strjálbýlli svæði. Við það hefur ekki verið staðið. Með 13% hækkun verðskrár Orkubús Vestfjarða  fyrir raforkudreifingu mun þessi munur aukast enn. Stjórn OV fer fram á að þessi munur verði jafnaður með auknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði  og þannig staðið við gefin fyrirheit stjórnvalda.

Þann 1. mars n.k..  hækka niðurgreiðslur vegna raforkudreifingar í dreifbýli úr 0,88 kr/kWh í 0,93 kr/kWh.

 Þess var jafnframt óskað að við ákvörðun á niðurgreiðslum raforku til húshitunar verði tekið mið af hinni nýju verðskrá og niðurgreiðslurnar hækkaðar á veitusvæði Orkubús Vestfjarða.
Orkubúi Vestfjarða hafa ekki borist upplýsingar um breytingu á niðurgreiðslum raforku til húshitunar.

Þar sem orkuverðsþátturinn er óbreyttur hefur þessi hækkun á dreifingunni þau áhrif að heildarreikningur fyrir raforku og dreifingu hækkar um tæp 7% hjá þeim sem ekki njóta niðurgreiðslna. Vegna þess að niðurgreiðslur hækka ekki til jafns við hækkun verðskrár verður hlutfallsleg hækkun þeirra sem njóta niðurgreiðslu hærri.

Ísafirði 27/2 2009

Kristján Haraldsson
orkubússtjóri

Verðskrárhækkun fyrir hitaveitur

1. mars 2009 kl. 14:00

Breyting hitaveituverðskrár Orkubús Vestfjarða.

Á fundi stjórnar Orkubús Vestfjarða hf. þann 28. janúar s.l. var ákveðið að hækka taxta verðskrár Orkubús Vestfjarða ohf. fyrir hitaveitur um 7%  frá og með 1. mars 2009. Tengigjöld verða óbreytt að sinni.

Hækkun þessi er rökstudd með vísan til verðlagshækkana frá síðustu breytingu verðskrárinnar 1/8 2008. Vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað um 23,6% síðustu 6 mánuði og vísitala neysluverðs um 8,4%.

Orkubú Vestfjarða boraði vinnsluholu fyrir heitt vatn í Tungudal við Skutulsfjörð á haustmánuðum s.l. árs. Borverkið kostaði um175 Mkr. en árangur af borun varð því miður enginn. Gert er ráð fyrir að lán Orkusjóðs til verksins að upphæð 102 Mkr. verði fellt niður en mismuninn 73 Mkr. verður Orkubú Vestfjarða að taka á sig.


Ísafirði 27/2 2009

Kristján Haraldsson
orkubússtjóri

Breyting á álestri

2. febrúar 2009 kl. 14:14
Nú um áramótin urðu þær breytingar að Rafveitusvið og Orkusvið hætta svokölluðum eftirlitsálestri.

Framvegis verður aðeins lesið af orkumælum einu sinni á ári í samræmi við reglur Orkustofnunar en þar segir:

Lesa skal á rafmagnsmæla árlega og annast dreifiveitan það ýmist sjálf eða felur notendum að lesa á mæla og tilkynna dreifiveitunni um mælisstöðuna. Þó er dreifiveitum skylt að senda fulltrúa sína til að lesa á rafmagnsmæla að minnsta kosti fjórða hvert ár.

Dreifiveita les á rafmagnsmæli

á fjögurra ára fresti í það minnsta eða 
ef notandi skiptir um raforkusala eða
ef notandi flytur úr íbúð eða húsi eða
ef skipt er um rafmagnsmæli.
Hafi notendur grun um að áætlun sé röng eða vilja koma álestri til dreifiveitu er hægt að senda inn álestur til Orkubúsins símleiðis eða gegnum heimasíðu fyrirtækisins og smella á Eyðublöð og Tilkynning um álestur.

02.02.2009  K.H.

Mjólkárvirkjun kominn í rekstur

27. janúar 2009 kl. 14:15

Báðar vélarnar eru komnar í rekstur.  Vél I var kominn í fullan rekstur kl. 19 sunnudaginn 25 janúar.  Viðgerð á vél II komst ekki á skrið fyrr en að morgni sunnudags.  Þá mættu fleiri starfsmenn Orkubúsins, Rafskut á Ísafirði og Vélsm Loga Patreksfirði auk starfsmanns frá verkfræðistofunni Raftákna Akureyri vegna vélar I.  Þegar mest var, þá voru sex aðilar að störfum við virkjunina auk þriggja starfsmanna virkjunarinnar.

Vél II var fösuð við net kl. 10 þriðjudaginn 27. janúar og var því búinn að vera stopp í 82 klst.  Báðar legur vélarinnar voru úrbræddar og öxull töluvert skemmdur í rafalalegu, þó ekki svo að hægt verði að nota vélina á fullu álagi.  Þegar þetta er skrifað kl. 14 er búið að auka álagið smátt og smátt frá því kl. 10 og er komið í 4 MW.  Ýmsar lagfæringar er búið að gera á rafbúanði svo tjón sem þetta komi ekki upp aftur.

Orkusvið

Sölvi R Sólbergsson 

Mjólkárvirkjun

25. janúar 2009 kl. 14:15

Báðar vélar virkjuninnar biluðu í útslætti  23. janúar kl. 23:45.  Véli I (2,4 MW) komst ekki í gang vega vandamála í gangráð vélarinnar.  Forrit í regli virkaði ekki sem skyldi og nú þegar þetta er skrifað, þá er búið að gangsetja vélina og fasa við net.  Tekinn aftur af neti vegna miniháttar viðhaldsverkefna og fljótlega fer hún í endanlegan rekstur.

Verri og alvarlegri bilun er á vél II (5,7 MW).  Bilun í neyðarbúnaði olli tjóni á legum vélarinnar.  Varalegur til á staðnum, en óljóst hvort skemmdir á öxli eru ekki það miklar að hægt verði að gangsetja vélina án þess að slípa öxulinn.  Eftir daginn á morgun ætti að vera komið í ljós hvort þrif á öxli gangi og nýta legurnar sem til eru óbreittar.  Taksit það, þá ætti vélin að vera komin í rekstur um miðja vikuna.  Ef ekki, þá er strax hægt að gefa sér rekstrarstopp út febrúar. 

Eldri færslur