Hækkun á verðskrám Orkubús Vestfjarða 1. janúar 2010.

5. janúar 2010 kl. 14:39
 

Þann 7. desember 2009 ákvað stjórn OV að hækka verðskrár fyrirtækisins frá og með 1. janúar 2010 sem hér segir:

Verðskrá fyrir raforkudreifingu.

Verðskrá fyrir raforkudreifingu hækkar að jafnaði um 10%. Tengigjöld eru óbreytt að sinni.

Hækkun þessi er m.a. rökstudd með vísan til verðlagshækkana frá síðustu breytingu verðskrárinnar 1/3 2009. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 6,4% síðustu 10 mánuði. Ennfremur er vísað til 10% hækkunar á flutningsgjaldskrá Landsnets 1/8 s.l. en sú hækkun kallar á rúmlega 3% hækkun á dreifigjaldskrám OV til að mæta útgjöldum af þeim sökum. Einnig er bent á að tekjur OV af raforkudreifingu hafa alla tíð verið vel undir leyfilegum tekjumörkum en með þessari hækkun færist OV örlítið nær tekjumörkunum.

Orkustofnun hefur samþykkt hina nýju verðskrá.

Verðskrá fyrir rafmagnssölu.

Verðskrá fyrir rafmagnssölu hækkar að jafnaði um 6%.

Hækkun þessi er rökstudd með vísan til boðaðrar hækkunar Landsvirkjunar  um 4,4% 1/1 2010 og verðlagshækkana seinni hluta árs 2009.

Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Mjólkárvirkjun og af þeim sökum er lögð til ívið meiri hækkun en verðlagsforsendur gefa tilefni til. Þrátt fyrir þessa hækkun er OV með lægra auglýst verð en Orkusalan og HS-Orka.

Verðskrá fyrir hitaveitur.

Verðskrá fyrir hitaveitur hækkar að jafnaði um 8%. Tengigjöld eru óbreytt að sinni.

Hækkun þessi er m.a. rökstudd með vísan til verðlagshækkana frá síðustu breytingu verðskrárinnar 1/3 2009. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 6,4% síðustu 10 mánuði.

Þá er ennfremur bent á að Orkubú Vestfjarða boraði vinnsluholu fyrir heitt vatn í Tungudal við Skutulsfjörð á haustmánuðum 2008. Borverkið kostaði um180 Mkr. en árangur af borun varð því miður enginn. Af láni Orkusjóðs til verksins voru 90 Mkr.  felldar niður en mismuninn 90 Mkr. þurfti Orkubú Vestfjarða að taka á sig.

Iðnaðarráðuneytið hefur staðfest hina nýju verðskrá og auglýst hana í Stjórnartíðindum

Verðskrárnar eru birtar á heimasíðu OV, www.ov.is.

Nýir og hækkaðir skattar á orku.

5. janúar 2010 kl. 13:01
 

Nýir og hækkaðir skattar á orku.

Virðisaukaskattur í efra þrepi hækkaði úr 24,5% í 25,5% þann 1. janúar 2010.

Frá sama tíma leggst nýr orkuskattur á raforku 12 aurar á hverja kílówattstund.

Nýr skattur er einnig lagður á sölu á heitu vatni, sá skattur nemur 2% af reikningsupphæðinni.

Niðurgreiðslur vegna hitunar íbúðarhúsnæðis eru óbreyttar enn, en stjórnvöld eru nú að skoða mögulega hækkun á þeim.

Orkubú Vestfjarða sölusvið gerir samninga um orkukaup og sölu.

20. nóvember 2009 kl. 08:43

Sölusvið Orkubús Vestfjarða hefur nýlega gert samning við Íslenska kalkþörungafélagið ehf um sölu á raforku til þurrkunar á kalkþörungum í verksmiðju félagsins á Bíldudal.

Fram til þessa hefur Kalkþörungaverksmiðjan notast við gas til þurrkunar.

Umfang samningsins sem er til tveggja ára er allt að 10,5 GWh á ári og hámarksafl um 3 MW.

Jafnframt hefur sölusvið OV gert samning við Orkuveitu Reykjavíkur til sama tíma um kaup á orku til að mæta orkuþörf Kalkþörungaverksmiðjunnar.

Gert er ráð fyrir að orkuafhending hefjist í  9. viku ársins 2010.

Sigurjón Kr. Sigurjónsson

framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Verðskrá raforkusölu OV breytist 1. júlí 2009.

30. júní 2009 kl. 15:14
 

Landsvirkjun hefur ákveðið að hækka verð á raforku um 7,5% frá og með 1. júlí. Í kjölfar þessarar ákvörðunar Landsvirkjunar hefur stjórn Orkubús Vestfjarða ákveðið að hækka verðskrá OV fyrir raforkusölu um 7,5% að jafnaði frá og með sama tíma.

Ákveðið var að fella öll fastagjöld út úr verðskránni og hækkar orkuverðið sem því nemur.

Þrátt fyrir þessa hækkun er Orkubú Vestfjarða með eitt lægsta orkuverð á Íslandi.

Verðskrár OV má skoða hér til hliðar.

Kristján Haraldsson

orkubússtjóri


 

Aðalfundur Orkubús Vestfjarða ohf.

2. júní 2009 kl. 10:08
 

Aðalfundur Orkubús Vestfjarða ohf. var haldinn á Ísafirði 29. maí 2009.

Árið 2008 var gott ár fyrir rekstur Orkubús Vestfjarða og varð hagnaður af venjubundnum rekstri fjórða árið í röð. Framleiðsla vatnsaflsvirkjana Orkubúsins var yfir meðallagi og ekki urðu nein stærri rekstraráföll í flutningskerfum Orkubúsins. 

Á árinu 2008 varð afkoma Orkubús Vestfjarða heldur betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstraráætlun ársins gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði að upphæð 28 Mkr. en samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af venjubundnum rekstri fyrir skatta, sem nam um 108,7 Mkr., en þegar tekið er tillit til breytinga á tekjuskattsprósentu og bókfærðs tekjuskatts 2008 er hagnaður ársins um 57,8 Mkr..  Afskriftir námu alls 202 Mkr.. Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. í árslok 2008 voru alls 5.125 Mkr. og heildarskuldir alls 672 Mkr. Eigið fé nam því alls 4.452 Mkr. sem er um 86,9 % af heildarfjármagni. Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. hafa ekki verið endurmetnar.

Á árinu 2008 var 413,8 Mkr. varið til fjárfestinga og auk var um 180 Mkr varið í borholu í Tungudal, en árangur af boruninni varð því miður enginn.

Fyrir 20 árum var öllum langtímaskuldum létt af Orkubúi Vestfjarða nema lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna fyrirtækisins. Þá var jafnframt ákveðið að haga rekstri fyrirtækisins með þeim hætti að nýjar fjárfestingar yrðu kostaðar af eigin fé fyrirtækisins og ekki yrði stofnað til skulda með nýjum lántökum.

Þessari stefnu hefur verið fylgt alla tíð síðan og hefur hún leitt til þess að Orkubú Vestfjarða er ekki skuldsett fyrirtæki hvorki í innlendum né erlendum gjaldmiðli. Af þessum sökum hafa bankahrunið á liðnu hausti, háir vextir og veiking íslensku krónunnar ekki haft umtalsverð áhrif á afkomu  fyrirtækisins.

Ársins 2008 verður minnst sem ársins þegar íslensku bankarnir féllu og efnahagur landsinsins varð fyrir þungu höggi. Þrátt fyrir áföll og brotsjói í efnahagslífi landsins siglir Orkubú Vestfjarða sterkt áfram, þökk sé varfærinni fjárfestingarstefnu og öllu því góða starfsfólki fyrirtækisins sem sinnir starfi sínu af metnaði alúð og trúmennsku

Í stjórn Orkubús Vestfjarða ohf. voru kjörin:

Guðmundur Jóhannsson, Reykjavík

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Tálknafirði

Kolbrún Sverrisdóttir, Ísafirði

Grímur Atlason, Bolungarvík og

Viktoría Ólafsdóttir, Hólmavík.

Nýkjörin stjórn kom síðan saman til fundar og skipti með sér verkum.

Guðmundur Jóhannsson var kjörinn formaður stjórnar, Kolbrún Sverrisdóttir var kjörinn varaformaður stjórnar og Grímur Atlason var kjörinn ritari stjórnar.

Athygli vekur að konur eru nú, í fyrsta sinn, fleiri en karlar í stjórn Orkubús Vestfjarða.

 

Kristján Haraldsson

orkubússtjóri

Eldri færslur