Orkubú Vestfjarða stefnir Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum vegna samnings um Úlfsá

18. apríl 2018 kl. 13:53

Fréttatilkynning 18. apríl 2018

Orkubú Vestfjarða stefnir Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum vegna samnings um Úlfsá

Orkubú Vestfjarða hefur stefnt Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf. fyrir Héraðsdóm Vestfjarða og krefst þess að samningur þessara aðila um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá á Dagverðardal frá 24. janúar 2018 verði ógiltur. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði fyrir dómi að allur réttur til virkjunar fallvatns í Úlfsá sé eign Orkubús Vestfjarða.

Í stefnunni er vísað til þess að við stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir 40 árum voru lagðar inn í félagið eignir RARIK á Vestfjörðum og rafveitur og virkjanir sem sveitarfélögin ráku. Einnig lögðu sveitarfélögin inn í félagið vatnsréttindi sem þau áttu, bæði þau sem voru þekkt og óþekkt á þeim tíma. Með þessu var verið að tryggja til framtíðar getu félagsins til raforkuframleiðslu. 

Með undirritun samnings þann 1. desember 1978 afsalaði Bæjarstjórn Ísafjarðar öllum eigum Rafveitu Ísafjarðar auk annarra réttinda til Orkubúsins. Í 5. grein samningsins segir orðrétt: „Ennfremur afsalar bæjarstjórn Ísafjarðar Orkubúi Vestfjarða borholum sínum í Tungudal með tilheyrandi hitaréttindum og öllum rétti til virkjunar vatnsafls, jarðhita eða fallvatns sem kaupstaðurinn á eða kann að eiga í löndum sínum eða annars staðar og hann kann að hafa samið um. Nær þetta jafnt til þekktra sem óþekktra réttinda.“

Þrátt fyrir þetta afsal hefur Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar undirritað fyrrnefndan samning um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá til AB-Fasteigna ehf. Þá vekur athygli að í samningnum við AB-Fasteignir ehf. er settur sá fyrirvari að komi í ljós að Ísafjarðarbær sé ekki lögmætur eigandi alls lands og vatnsréttinda í Úlfsá falli samningurinn niður báðum aðilum að skaðlausu.

Ekki aðrir kostir í stöðunni

Af hálfu Orkubús Vestfjarða var strax brugðist við samningi Bæjarstjórnar Ísafjarðar og AB-Fasteigna ehf. og með bréfi orkubússtjóra til bæjarstjórnar var lýst undrun og bent á að bærinn gæti ekki ráðstafað þeim réttindum sem þar hafði verið samið um því þau væru í lögmætri eigu Orkubúsins. Þar sem samskipti við bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar um þessi ólögmætu viðskipti hafa ekki borið árangur á Orkubúið ekki annan kost í stöðunni en að höfða mál á hendur Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf. til að tryggja rétt sinn. 

Stjórnarskrárvarin réttindi

Forsenda reksturs Orkubús Vestfjarða byggir á því að virkjun þess vatnsafls sem Orkubúið á verði á þess höndum. Nú þegar fyrir liggur að virkjun réttinda í Úlfsá er orðin fjárhagslega fýsileg er það skýlaust brot á stjórnarskrárvörðum rétti Orkubúsins og fjölmörgum öðrum lagaákvæðum að Ísafjarðarbær leggi eign Orkubúsins undir sig með þeim hætti sem gert var með samningnum við AB-Fasteignir ehf.

Í ljósi þessa er það skylda stjórnar félagsins að leita til dómstóla til að gæta hagsmuna þess varðandi eignarhald og umráðarétt eigna sem voru lagðar inn í félagið við stofnun þess.

Frekari upplýsingar veitir Elías Jónatansson, orkubússtjóri, sími 892 4461

Lyftum umræðunni á örlítið hærra plan!

16. apríl 2018 kl. 14:24
Elías Jónatansson, orkubússtjóri
Elías Jónatansson, orkubússtjóri

Umræðan um orkumál á Vestfjörðum hefur sjaldan verið meiri en undanfarin misseri, nema ef vera skyldi á árunum í kringum stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir 40 árum.  Orkubúið hefur þá sérstöðu á meðal orkufyrirtækja á Íslandi að vera bæði í hlutverki dreifingarfyrirtækis, og orkusölu- og framleiðslufyrirtækis.  Þessi sérstaða hefur bæði kosti og galla.  Kostirnir felast ekki síst í samnýtingu á mannskap fyrir veituna og framleiðsluna.  Kostnaðarskiptingin lýtur þó ákveðnum reglum og er undir eftirliti opinberra aðila.

5 - 9% lægra söluverð á raforku hjá Orkubúinu

Ókosturinn birtist í því að erfitt er að koma því vel til skila að Orkbú Vestfjarða, þ.e. söluhlutinn er með lægsta verð á raforku til neytenda og hefur verið með eitt lægsta verðið í mörg ár.  Af þessum sökum er það lang hagstæðast fyrir almenna neytendur á Vestfjörðum að eiga raforkuviðskipti sín við Orkubúið.  Það er reyndar líka hagstæðast fyrir alla aðra almenna neytendur á Íslandi.  Munurinn á útgjöldum hjá heimili sem kaupir 40 þús kWst á ári nemur þannig allt að 20 þúsund krónum yfir árið sé miðað við að heimilið væri að öðrum kosti í viðskiptum við stórt orkusölufyrirtæki á Reykjavíkursvæðinu.  Fjöldi kWst er hér miðaður við heimili sem er með rafhitun.
Núna er verð á raforku til almennra neytenda t.d. 5 til 9 % hærra hjá stærstu orkusölufyrirtækjunum en hjá Orkubúi Vestfjarða.  Vegna smæðar markaðarins og mikilla vegalengda á Vestfjörðum m.v. fólksfjölda verður dreifingin óneitanlega ekki jafn hagkvæm og í þéttbýlinu á suðvesturhorninu svo dæmi sé tekið og Orkubúið á því erfiðara með að vera með lægsta verð á dreifingu raforku.
Stefnan í orkusölu hefur verið í samræmi við þá stefnu sem sveitarfélögin á Vestfjörðum gerðu að meginstefi við stofnun Orkubúsins, nefnilega samkeppnishæft verð. 

Stefnan er aukið orkuöryggi

Á sínum tíma bar Orkubú Vestfjarða ábyrgð á flutningslínum á Vestfjörðum.  Í dag er það Landsnet sem á línurnar sem eru hluti flutningskerfis raforku á Íslandi.  Landsnet á þannig línur og strengi á Vestfjörðum allt frá Gilsfirði til Bolungarvíkur í norðri og í Tálknafjarðarbotn í suðri.  Orkubú Vestfjarða á svo minni línur og strengi sem notaðir eru til dreifingar á raforku.  Orkuöryggi á Vestfjörðum verður því alltaf samofið afhendingarörygginu hjá þessum tveimur fyrirtækjum. 

Miklir fjármunir hafa verið settir í að skipta út loftlínum Orkubúsins fyrir jarðstrengi allt frá Hrútafjarðarbotni til Hólmavíkur og áfram út Ísafjarðardjúp auk jarðstrengjavæðingar á Barðaströnd og víðar.  Þeir fjármunir sem settir eru í slíkar framkvæmdir hafa alla jafnan ekki í för með sér aukningu á tekjum og eru því íþyngjandi fyrir reksturinn a.m.k. í byrjun.  Jarðstrengjavæðing leiðir samt vonandi til lækkunar á viðgerða- og viðhaldskostnaði til lengri tíma litið auk þess að bæta þjónustuna við viðskiptavini þar sem í leiðinni er notað tækifæri til þrífösunar.  Stefna Orkubúsins að auka orkuöryggi er þannig alveg skýr.  Aukið orkuöryggi hefur hinsvegar óhjákvæmilega í för með sér hærra verð á dreifingunni vegna þess að mæta þarf afskriftum og greiða niður fjárfestinguna.  Orkubúið á mikil samskipti við Landsnet þar sem hvert tækifæri er notað til að koma á framfæri sjónarmiðum Vestfirðiniga varðandi styrkingu raforkukerfisins, auk þess sem það er gert með formlegum hætti í umsögnum um kerfisáætlun Landsnets.

Smávirkjanir

Virkjun Úlfsár í Skutulsfirði hefur verið til umræðu að undanförnu og því jafnvel haldið fram að Orkubúi Vestfjarða standi í vegi fyrir virkjuninni.  Slíkar fullyrðingar eiga sér nákvæmlega enga stoð í veruleikanum.  Þvert á móti þá hefur Orkubúið boðist til að koma að samningi við virkunaraðila til að af virkjuninni megi verða.  Ekki má rugla því saman við þá staðreynd að Orkubúið getur ekki látið það afskiptalaust að sveitarfélag hyggist nú leigja vatnsréttindi, sem það lagði inn í Orkubúið sem stofnfé, til þriðja aðila.

Þess má geta að 0,2 MW virkjun Úlfsár hefur í sjálfu sér ekki mikil áhrif í heildarsamhenginu, en gera má ráð fyrir að framleiðsla virkjunarinnar verði um 0,25 prósent af raforkunotkun á Vestfjörðum.  Það þyrfti því líklega 400 slíkar virkjanir til að anna núverandi raforkunotkun á Vestfjörðum.

Hraðhleðslustöðvar

Uppbygging hraðhleðslustöðva við þjóðvegi á Íslandi er mikið framfaramál.  Það er mat kunnugra að þéttleiki nets slíkra hraðhleðslustöðva þurfi að vera þannig að ekki séu meira en 80 til 100 km á milli stöðva og er þá verið að taka tillit til langdrægni rafbíla í dag.  Það er óraunhæft að fara um landið á þeim rafbílum sem standa til boða í dag án þess að eiga kost á hraðhleðslu.  Orkubúið hefur tekið ákvörðun um að einbeita sér að sínu veitusvæði hvað þetta varðar.  Rétt er að hafa í huga að jafnvel þótt búið væri að setja upp net hraðhleðslustöðva núna þá væri vegalengdin í hraðhleðslutöð frá Vestfjörðum á leið til Reykjavíkur, 140 km frá Bjarkalundi og 160 km frá Hólmavík.  Þetta mun þó gjörbreytast með tilkomu hraðhleðslustöðvar sem væntanleg er í Búðardal í sumar.  Ég tel þvi að tímasetning Orkubúsins á uppsetningu hraðhleðslustöðva hafi verið skynsamleg.  Reyndar stóð til að ljúka uppsetningu tveggja stöðvi sl. haust, en af óviðráðanlegum orsökum tókst það ekki m.a. vegna óhapps sem varð í flutningi stöðvanna.  Orkubúið mun hefja uppsetningu á fyrstu hraðhleðslustöðvunum á Hólmavík og Patreksfirði á næstu vikum, en mun jafnframt kynna frekari áform um uppsetningu hleðslustöðva innan tíðar.

Stakkaskipti ?

Tilefni þessarar greinar eru skrif „Stakks“ á dögunum um aðkomu Orkubús Vestfjarða að orkumálum á Vestjförðum.  Mér þótti örla á sleggjudómum í greininni og í einhverjum tilfellum rangfærslum, sem eru ekki það innlegg sem umræðan þarfnast helst núna.  Mér hefur reyndar þótt umræðan um orkumál á Vestfjörðum vera lituð af stórum fullyrðingum og jafnvel ásökunum, sem ekki hafa alltaf átt við rök að styðjast.  Þannig má umræðan sjálf gjarnan taka stakkaskiptum og byggja meira á traustum rökum.  Slík umræða er ávallt af hinu góða og henni ber að fagna.  Orkubúið vill að sjálfsögðu vera þátttakandi í umræðu um orkumál. 

Ég spyr samt hvort ekki sé tímabært „að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan“, eins og skáldið sagði forðum.  Það gæti að mínum dómi orðið til verulegra bóta.

Elías Jónatansson, orkubússtjóri

 

Afhending samfélagsstyrkja Orkubús Vestfjarða 2017

2. mars 2018 kl. 11:33
Frá afhendingu á Patreksfirði
Frá afhendingu á Patreksfirði
1 af 7

Formleg afhending styrkjanna fór fram í dag kl. 11:00 í húsnæði OV að Stakkanesi Ísafirði, Eyrargötu Patreksfirði og Skeiði 5 Hólmavík.

Alls bárust 55 umsóknir og að þessu sinni voru veittir 43 styrkir samtals að fjárhæð 3.600.000 kr.

Þeir sem hlutu styrk að þessu sinni voru: 

 • Blakdeild Vestra: Blakboltar og körfur fyrir bolta - 50.000 þús. kr.
 • Samgöngufélagið: Búnaður til útvarpsútsendinga í veggöngum - 100.000 þús. kr.
 • Héraðssamband Vestfirðinga: Áhaldakaup - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Björg Suðureyri: Tækjabúnaður í björgunarbát - 250.000 þús. kr.
 • Héraðssamband Vestfirðinga, HSV: Fræðsluverkefni - 50.000 þús. kr.
 • Héraðssamband Vestfirðinga, HSV: Brettaæfingar í íþróttaskóla HSV - 50.000 þús. kr.
 • Sunnukórinn: Söngdagskrá í tilefni 100 ára fullveldis Íslands - 50.000 þús. kr.
 • Foreldrafélag leik- og grunnskóla Önundarfjarðar: Gönguskíði fyrir leik-og grunnskóla - 100.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið Grettir Flateyri: Efniskaup og smíði á gönguskíðaspori - 50.000 þús. kr.
 • Íþróttafélagið Vestri: Siðareglur og jafnréttisáætlun - 50.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Ernir: Ljósbúnaður á snjóbíl - 100.000 þús. kr.
 • Víkingar á Vestfjörðum kt. 480104-3580: Viðhald á hátíðarsvæði Þingeyringa - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarfélag Ísafjarðar: Endurbætur á sjúkraföngum og persónubúnað - 100.000 þús. kr.
 • Sæfari,félag áhugamanna um sjósport á Ísafirði: Ungmennastarf - 100.000 þús. kr.
 • Hestamannafélagið Stormur: Barna og unglingastarf - 50.000 þús. kr.
 • Foreldrafélag Grunnskólans í Bolungarvík: Örnámskeið fyrir nemendur og foreldra - 50.000 þús. kr.
 • Ungmennafélag Bolungarvíkur: Búnaðarkaup - 100.000 þús. kr.
 • Knattspyrnufélagið Hörður: Íslandsmót 5fl. o.fl - 50.000 þús. kr.
 • Laufey Eyþórsdóttir: Stuðningur við fólk á einhverfurófi - 50.000 þús. kr.
 • Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði: Leiksýning - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Tindar Hnífsdal: Uppfærsla á fyrstuhjálparbúnað - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitini Sæbjörg á Flateyri: Þakviðgerð - 100.000 þús. kr.
 • Elfar Logi Hannesson: Leiklistarsaga Dýafjarðar - 50.000 þús. kr.
 • Kómedíuleikhúsið: Einar Guðfinnsson söguleg leiksýning - 50.000 þús. kr.
 • Act alone: Leiklistarhátíðin Act alone 2018 - 50.000 þús. kr.
 • Höfrungur leikdeild: Uppsetning á Ronju Ræningjadóttur - 50.000 þús. kr.
 • Heilsubærinn Bolungarvík: Farþegahjólakaup - 100.000 þús. kr.
 • Sköpunarhúsið 72 ehf: Húsið-House of Creativity - 50.000 þús. kr.
 • Sjómannadagsráð Patreksfjarðar: Sjómannadagurinn á Patreksfirði - 200.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Blakkur: Lagfæring á bíl - 200.000 þús. kr.
 • Blús milli fjalls og fjöru.: Tónlistarhátíð - 50.000 þús. kr.
 • Sundfélagið Grettir og Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða: Hleðsla umhverfis Gvendarlaug - 50.000 þús. kr.
 • Gunnar Smári Jóhannesson: Leiklistarnámskeið fyrir börn og unglinga - 50.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið Geislinn: - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Dagrenning Hólmavík: Endurnýjun tölvubúnaðar - 150.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið Leifur heppni: Uppsetning og kaup á klórkerfi - 50.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið -Afturelding-(UMFA): Barna-og unglingastarf - 100.000 þús. kr.
 • Albert Páll Sigurðsson: Gera upp Ólafarbrunn í Flatey - 50.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið Neisti: Kaup á róðravél  - 50.000 þús. kr.
 • Skíðafélag Strandamanna: Æfingaferð til Svíþjóðar með krakka - 50.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Björg Drangsnesi: Snjóflóðabakpokar fyrir vélsleða - 150.000 þús. kr.
 • Nemendafélag Reykhólaskóla: Ungmennahelgi Laugum í Sælingsdal - 100.000 þús. kr.
 • Leikfélag Hólmavíkur: Leiksýning - 50.000 þús. kr.

 Meðfylgjandi myndir eru frá afhendingu samfélagsstyrkjanna á Stakkanesi og á Patreksfirði.

 

Samfélagsstyrkir Orkubús Vestfjarða fyrir árið 2017

1. mars 2018 kl. 09:16
Frá afhendingu samfélagsstyrkja fyrir árið 2016
Frá afhendingu samfélagsstyrkja fyrir árið 2016

Alls bárust 55 umsóknir og að þessu sinni verða veittir 43 styrkir samtals að fjárhæð 3.600.000 kr.

 

Formleg afhending styrkjanna fer fram í húsnæði OV að Stakkanesi á Ísafirði, Skeiði Hólmavík og Eyrargötu Patreksfirði á morgun, 2. mars kl. 11:00.

 

Búið er að tilkynna styrkþegum um styrkveitinguna.

 

Þess er vænst að styrkþegar eða fulltrúar þeirra mæti og taki við skjali til staðfestingar styrkveitingunni og þiggi kaffiveitingar.

 

 

Sanngirni gætt við stofnun Orkubús Vestfjarða

9. febrúar 2018 kl. 13:46
Elías Jónatansson, orkubússtjóri
Elías Jónatansson, orkubússtjóri

Á dögunum kom upp umræða um vatnsréttindi í eigu Orkubús Vestfjarða, í tengslum við litla virkjun í Skutulsfirði.  Umræðan um vatnsréttindi OV er ekki ný af nálinni og hefur reyndar stundum farið út um víðan völl og ekki byggt alfarið á staðreyndum málsins.  Hér verður vikið nokkrum orðum að stofnun Orkubús Vestfjarða og fjárhagslegum forsendum þess gjörnings í tengslum við vatnsréttindi félagsins.

Ráðstöfun vatnsréttinda til Orkubúsins
Í umræðunni krystallast sá meiningarmunur sem komið hefur upp í viðræðum Orkubúsins við sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum í tengslum við afhendingu þeirra á vatnsréttindum til Orkubúsins við stofnun þess.  Orkubú Vestfjarða telur að samningar sem undirritaðir voru við sveitarfélögin taki af allan vafa um eignarhaldið á vatnsréttindunum, en efasemda hefur gætt hjá ýmsum fulltrúum sveitarstjórna. 

Samningarnir sem gerðir voru við sveitarfélögin eru að vonum mjög keimlíkir og er hér dæmigert orðalag slíkra samninga eins og það kemur fyrir í samningi við Ísafjarðarkaupstað á sínum tíma.  (Feitletranir eru höfundar)

Í samningnum segir í 5. grein:
„ Frá og með 1. janúar 1978 afhendir bæjarstjórn Ísafjarðar Orkubúi Vestfjarða allan rétt til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns, sem Ísafjarðarkaupstaður eða Rafveita Ísafjarðar á eða kann að eiga í löndum kaupstaðarins, rafveitunnar eða annars staðar og kaupstaðurinn kann að hafa samið um.  Nær þetta jafnt til þekktra sem óþekktra réttinda.  Jafnframt er Orkubúi Vestfjarða veittur réttur til hvers konar rannsókna og tilraunaborana í löndum Ísafjarðarkaupstaðar og hagnýtingar þerra upplýsinga er við það fást, en gefa skal bæjarstjórn Ísafjarðar kost á að fylgjast með rannsóknum og niðurstöðum þeirra.  Hafa skal samráð við bæjarstjórnina áður en rannsóknir eða boranir eru ákveðnar og haga þeim svo að sem minnst röskun verði fyrir kaupstaðinn eða íbúa hans.“ 

Sambærilegt ákvæði er að finna í 5. grein afsalsins.

Engum vafa er því undirorpið að sveitarfélögin létu af hendi vatnsréttindi sem tilheyra landi í þeirra eigu, en eignuðust í staðinn hluti í Orkubúi Vestfjarða.  Þetta var gert með fullri vitund og vilja þeirra sem fóru með samningsumboðið fyrir hönd sveitarfélaganna.

Greiðsla fyrir vatnsréttindin
Margir núverandi sveitarstjórnarmenn vilja meina að ekki hafi verið greitt fyrir vatnsréttindin á sínum tíma og telja jafnvel vafa leika á því að þau séu í raun og veru eign Orkubús Vestfjarða.  Því fer hinsvegar víðs fjarri enda verður það að teljast ólíklegt að allir helstu forystumenn sveitarfélaga á Vestfjörðum hefðu látið hlunnfara sín sveitarfélög með þeim hætti.  Samningurinn var gerður við 32 sveitarfélög á Vestfjörðum sem samtals eignuðust 60% hlut í Orkubúi Vestfjarða.  Samningurinn er undirritaður af tugum sveitarstjórnarmanna þess tíma.

Við stofnun Orkubús Vestfjarða lagði ríkið m.a. inn sem stofnfé, Mjólkárvirkjun, Þverárvirkjun og Reiðhjallavirkjun ásamt vatnsréttindum þeirra og aðalorkuflutningslínum sem voru í eigu Rarik.  Ekki verður rakinn hér stofnefnahagsreikningur Orkubúsins, en rétt er að geta þess að þær eignir sem voru taldar upp hér á undan námu um 59% af höfuðstól í efnahagsreikningi eftir að áhvílandi skuldir hafa verið dregnar frá.  Eignir sveitarfélaganna og veitna í þeirra eigu hafa því numið um 41%.  Tiltekið var í samningum við sveitarfélögin að vatnsréttindi þeirra væru hluti af stofnframlagi í Orkubúi Vestfjarða eins og fram kom hér á undan.  Vatnsréttindin eru ekki bókfærð, en eru tilgreind í skýringu 15 í ársreikningi Orkubúsins 2016, sem eignir utan efnahags. 

Lög og reglugerð um Orkubú Vestfjarða
Í lögum um Orkubú Vestfjarða nr. 66/1976 segir í 3. grein að eignarhluti ríkissjóðs skuli vera 40% en eignarhlutur sveitarfélaganna skuli nema samtals 60% og skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu þeirra.  Hið sama kemur fram í reglugerð um Orkubú Vestfjarða nr. 192/1978.

Samningurinn hagstæður sveitarfélögunum
Skipting á heildareign sveitarfélaganna og eign ríkisins var ákveðin með reglugerð sem studd var lögum og ekki verður annað séð en að sveitarstjórnarmenn hafi haldið vel á spilunum fyrir sína umbjóðendur með því að fá 60% eignarhald í félaginu á móti 40% eign ríkisins.  Sveitarfélögin fengu þannig verulega stærri hlut í félaginu en sem nam þeim fastafjármunum og veltufjármunum sem þau lögðu fram.   Það skýrist ekki síst af væntingum á nýtingu þeirra vatns- og jarðhitaréttinda sem fylgdu með í kaupunum.

Það má öllum vera ljóst að skipting á eignarhaldi sveitarfélaganna fór ekki nákvæmlega eftir því hvaða eignir þau höfðu lagt til hvert um sig, heldur fór hluturinn eftir íbúatölu viðkomandi sveitarfélags.  Á sama hátt er það augljóst að eignarhlutur sveitarfélaganna var mun hærri en nam þeim fastafjármunum og veltufjármunum sem þau lögðu til félagsins.

Augljóst má því vera að sveitarfélögin báru ekki skarðan hlut frá borði þegar samið var um eignarhald Orkubúsins og þau eignuðust 60% hlut á móti 40% hlut ríkisins.  Þar ber þó að hafa í huga að sveitarfélögin voru að setja inn í félagið bæði þekkt og óþekkt vatnsréttindi sín á meðan ríkið var að setja inn þekkt og óþekkt vatnsréttindi tengd virkjununum sínum.

Orkubú Vestfjarða ohf
Orkubúi Vestfjarða var breytt úr sameignarfélagi í hlutafélag með lögum nr. 40/2001.  Í kjölfar þess keypti ríkið hluti sveitarfélaganna á árinu 2001 og 2002, fyrir samtals 2.760 m.kr.  Uppreikna má þá fjárhæð með vísitölu til verðtryggingar og fæst þá sú niðurstaða að ríkið hafi greitt sveitarfélögunum 5,8 milljarða fyrir hluti þeirra í Orkubúinu, reiknað á verðlagi dagsins í dag. 

Á því má vissulega hafa mismunandi skoðanir hvort fjárhæðin var nægilega há.  Það má líka hafa á því skoðun hvort sveitarfélögin hafi breytt rétt með ákvörðun sinni um að selja og að vera ekki lengur eigendur í Orkubúi Vestfjarða.  Út frá fjárhagslegu sjónarmiði verður þó að teljast ólíklegt að það kæmi sér endilega betur fyrir sveitarfélögin að vera með 5,8 milljarða króna bundna í eignarhaldi á Orkubúinu.

Sanngirni gætt
Mín skoðun er sú að gætt hafi verið fyllstu sanngirni í samningum á milli aðila og að vissulega hafi verið tekið tillit til þess að Orkubúið væri að eignast þekkt og óþekkt vatnsréttindi sem áður voru í eigu sveitarfélaganna. Það er von mín að hér hafi tekist að varpa nokkru ljósi á aðdraganda þess að Orkubú Vestfjarða eignaðist vatnsréttindi sveitarfélaganna á Vestfjörðum og að þeir heiðursmenn sem stóðu að stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir hönd sveitarfélaganna og ríkisins njóti kannski meira sannmælis en þeir oft hafa gert í umræðunni.

 

Ísafirði, 9. febrúar 2018,
Elías Jónatansson, orkubússtjóri

 

Eldri færslur